Kvíslarskóli
  • Virðing - 
  • Þrautseigja - 
  • Ábyrgð

Einelti

Í eineltisteymi skólans eru skólastjórnendur og sex fulltrúar starfsfólks. Hver bekkur hefur einn bekkjartíma í viku í stundatöflunni og er þeim tímum ætlað að vera vettvangur fyrir nemendur að ræða einelti, félagatengsl og líðan í bekknum. Nemendum eru kynntar bekkjarreglur sem sérstaklega eru samdar í því skyni að stöðva og koma í veg fyrir einelti. Þeir eiga að læra um hvernig einelti birtist, hvaða aðferðum er beitt og hvaða tjóni það getur valdið.

Umræður, hlutverkaleikir, myndbönd og annað efni er nýtt til að gera nemendurna meðvitaða um einelti sem fyrirbrigði og þeim eru kenndar einfaldar leiðir til að bregðast við því einelti sem þau verða vör við umhverfis sig. Lögð er áhersla á að efla færni nemenda til að velja rétta afstöðu og hjálpa þeim sem verða fyrir einelti. 

Stjórnendur og aðrir starfsmenn skólans hafa mikilvægu hlutverki að gegna með því að fylgjast með nemendum innan dyra og á skólalóð, vera á verði gagnvart einelti, notkun tóbaks og annars óæskilegs atferlis sem af og til kemur upp. Að taka fljótt og vel á málum við slíkar aðstæður er afar mikilvægt og það er kappkostað í Kvíslarskóla. Samstarf við forvarnarfulltrúa lögreglunnar er einnig mjög gott og gefur að okkar mati góða raun.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira