Skólasóknarreglur í grunnskólum Mosfellsbæjar
Tilgangur
Tilgangur þess að vinna að stefnumótun um fjarvistir/óstundvísi og veikindi/leyfi í grunnskólum Mosfellsbæjar er margvíslegur og felst einkum í fjórum þáttum:
a) Að samræma vinnubrögð, verklag og úrræði svo allir grunnskólanemendur njóti jafnræðis varðandi mat á þátttöku sinni í skólastarfinu, óháð skólum í Mosfellsbæ.
b) Að koma sem mest í veg fyrir óþarfa fjarvistir úr skólastarfinu og fyrirbyggja skólaforðun einstakra nemenda.
c) Að veita nemendum og foreldrum stuðning við nám og námsástundun.
Markmið
Markmið með þessari stefnumótun er:
a) Að auka skólasókn nemenda, þ.e. draga úr fjarvistum og brottfalli úr skóla.
b) Að bæta námsárangur nemenda
c) Að vinna gegn kvíða og annarri vanlíðan sem hugsanlega gæti skapast af minnkandi skólasókn, t.d. prófkvíða, aðgerðarkvíða o.þ.h.
d) Að vinna að vitundarvakningu skólasamfélagsins um mikilvægi skólasóknar.
e) Að grípa inn í og skoða ástundun með reglubundnum hætti áður en vandi verður of umfangsmikill.
Reglur um skólasókn
Allt starf grunnskólans byggir á lögum um grunnskóla frá 2008. Í lögunum er kveðið á um réttindi og skyldur nemenda, foreldra og grunnskólans.
Skólasóknarreglur þær sem hér eru kynntar skiptast í tvennt, annars vegar eru reglur vegna fjarvista og óstundvísi en hins vegar eru reglur vegna leyfa og veikinda nemenda. Sitt hvort viðmið gildir vegna reglnanna varðandi eftirfylgni þótt í meginatriðum sé sama skipulag á hvoru tveggja.
Lög um grunnskóla úr 18. gr. Foreldrar og meðferð upplýsinga.
„Foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar eiga rétt á að velja grunnskóla innan sveitarfélags fyrir börn sín samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Jafnframt skulu þeir eiga rétt á upplýsingum um skólastarf og skólagöngu barna sinna. Foreldrum er skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Um persónuupplýsingar sem þannig er aflað eða fylgt hafa barni úr leikskóla er krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.“
Skólasókn nemenda er sýnileg í Mentor/Námfús og send foreldrum vikulega frá skrifstofu skóla. Umsjónarkennari fylgist með mætingum nemenda sinna og ber ábyrgð á fyrstu þrepum í ferlinu. Umsjónarkennarar kalla vikulega fram lista um skólasókn og bregðast við samkvæmt verkferlum.
Athugasemdir við skólasóknarfærslur þurfa að berast umsjónarkennurum innan viku ella skoðast færslurnar samþykktar. Umsjónarkennari aflar upplýsinga og leiðréttir ef við á.
Lög um grunnskóla, úr 13. gr. Réttur nemenda.
„... Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila...“
Lög um grunnskóla, úr 19. gr. Ábyrgð foreldra.
„Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Jafnframt skal hann tilkynna barnaverndaryfirvöldum um málið. Skólastjóri skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins. “
Lög um grunnskóla, úr 14. gr. Ábyrgð nemenda.
„Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda“.
Skólasóknareinkunn
Skólasóknareinkunn kemur fram á vitnisburðarblaði nemenda að vori og er hún gefin sem bókstafseinkunn samkvæmt viðmiðum um fjarvistarstig í eftirfarandi töflu.
Fjarvistarstig | Skólasóknareinkunn |
0-5 | A |
6-9 | B+ |
10-19 | B |
20-29 | C+ |
30-39 | C |
40-49 | D |
50+ | D |
Nemendum í 5. - 10. bekk gefst kostur á að sækja um hækkun skólasóknareinkunnar ef hún er orðin C+ eða lægri. Skólasóknareinkunn er hægt að hækka um tvö fjarvistarstig á viku með óaðfinnanlegri skólasókn í heila viku. Ekki er hægt að hækka hærra en í B yfir skólaárið.
Nemandi og foreldri sækja um hækkun skólasóknareinkunnar til deildarstjóra viðkomandi stigs. Gerður er skriflegur samningur milli deildarstjóra, nemanda og foreldra. Hægt er að sækja um hækkun skólasóknareinkunnar tvisvar að vetri, fyrir og eftir áramót.
Skólasóknarkerfi í 1. - 10. bekk vegna óheimilla fjarvista
Í upphafi hvers skólaárs eru nemendur með fullnægjandi skólasókn. Mæti nemandi of seint í kennslustund fær hann eitt fjarvistarstig og fyrir óheimila fjarvist úr kennslustund tvö fjarvistarstig. Sérstaklega skal taka tillit til aðstæðna í skólum með fleiri en 180 nemendadaga og bæta hlutfallslegri hækkun við þrepin.
10 fjarvistarstig
Umsjónarkennari hefur samband við foreldra/forráðamenn gegnum Mentor/Námfús og ræðir við nemandann. Dagsetning samskipta skráð í Mentor / Námfús og niðurstöður á eyðublað.
20 fjarvistarstig
Umsjónarkennari boðar til fundar með foreldrum/forráðamönnum ásamt nemanda, námsráðgjafa eða fulltrúa skólastjóra. Gerð er áætlun um bætta skólasókn sem fundarmenn undirrita. Dagsetning fundar skráð í Mentor / Námfús.
30 fjarvistarstig
Umsjónarkennari vísar málinu til nemendaverndarráðs og upplýsir foreldra/forráðamenn þar um. Skólastjóri eða fulltrúi hans boðar foreldra/forráðamenn, nemanda og þá sem hafa komið að málinu innan skólans til fundar þar sem leitað er lausna á vanda nemandans. Gerð er áætlun sem fundarmenn undirrita. Dagsetning fundar skráð í Mentor / Námfús.
40 fjarvistarstig
Skólastjóri eða fulltrúi hans sendir beiðni til skólaþjónustu Mosfellsbæjar um aðkomu að málinu í samvinnu við foreldra. Skólastjóri boðar til fundar með foreldrum/forráðamönnum, fulltrúum skóla og skólaþjónustu. Markmiðið er að bregðast við með persónulegri aðstoð og ráðgjöf við nemanda með skoðun á námsumhverfi, líðan og félagslegum aðstæðum.
50 fjarvistarstig
Ef ofangreindar aðgerðir hafa ekki borið árangur vísar skólastjóri málinu til barnaverndar Mosfellsbæjar. Fram kemur í tilkynningu hvað hafi verið gert á fyrri þrepum. Tilkynningar ítrekaðar á mánaðarfresti ef skólasóknarvandi nemanda heldur áfram.
Á öllum þrepum ber að gæta jafnræðis og samræmis í viðbrögðum. Taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
Stuðla ber að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um mál nemanda og afla samþykkis þeirra þegar við á. Gæta ber að rétti foreldra til upplýsinga og andmæla í samræmi við stjórnsýslulög 19/1993.
Undantekningarlaust skal haga skráningu mála sem fara samkvæmt verklagsreglunum til samræmis við 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem m.a. kemur fram að halda þarf til haga mikilvægum upplýsingum í tengslum við meðferð mála og ef taka á ákvörðun um rétt eða skyldur manna ber að skrá málsatvik. Stjórnandi skal sjá til þess að atvik séu skráð og varðveitt á starfsstaðnum svo og ferill máls og ákvarðanir sem teknar eru í kjölfarið, í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 og jafnframt lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014.
Auk þess ber að fylgja ákvæðum laga um grunnskóla nr. 91/2008, reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins, reglugerð nr. 444/2019 um skólaþjónustu, reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 og öðrum lögum og reglum sem gilda um grunnskóla.
Veikindi og leyfi
Þegar nemandi er tilkynntur veikur eða í leyfi þarf að skoða forfallasögu hans í skólanum. Ávallt skal skoða a.m.k. síðustu þrjá skólamánuði, bæði með tilliti til leyfis og veikinda. Miðað er við forföll önnur en langtíma veikindi eða lengri samfellda tímabundna undanþágu frá skólaskyldu nemanda.
Hvernig skal tilkynna veikindi nemenda?
Foreldrar tilkynni um veikindi barna sinna daglega fyrir upphaf skóladags. Tilkynna skal veikindin rafrænt í Mentor/Námfús eða símleiðis á skrifstofu skóla. Ef um langvinn veikindi er að ræða eða veikindadagar eru orðnir fleiri en 10, samfleytt, áskilur skólastjóri sér rétt til að kalla eftir læknisvottorði. Skila þarf inn læknisvottorði ef nemandi er frá í tvær vikur eða lengur. Læknisvottorð gilda fyrir þann tíma sem tilgreindur er á vottorði og ber að skila í upphafi leyfistímans.
Ef vottorð eru ekki tímasett skulu þau endurnýjuð á 30 daga fresti nema skýrt komi fram að um lengri veikindi sé að ræða.
Um langvinn veikindi gildir 17.gr. grunnskólalaga.
Lög um grunnskóla; úr 17. gr. Nemendur með sérþarfir.
...“Nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda eiga rétt til sjúkrakennslu annað hvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags...“
Hvernig skal sækja um tímabundið leyfi?
Foreldrum eða forráðamönnum ber að sækja um leyfi fyrir börn sín með góðum fyrirvara, sé því við komið. Ekki er hægt að sækja um leyfi eftir á, hvorki vegna stakra kennslustunda né heilla daga.
Foreldrar geta sótt um leyfi fyrir stakar kennslustundir eða einn dag með símtali eða tölvupósti til umsjónarkennara og/eða skrifstofu skólans.
Ef sækja þarf um leyfi í tvo til fimm daga samfellt þurfa foreldrar að skila rafrænni umsókn í gegnum Íbúagátt Mosfellsbæjar. Leyfið tekur gildi þegar samþykki skólastjóra/staðgengils hans liggur fyrir.
Ef sótt er um leyfi fyrir nemanda í lengri samfelldan tíma en fimm daga eða leyfisdagar eru orðnir fleiri en tíu á skólaárinu ber foreldrum að sækja um leyfið skriflega og eiga fund með skólastjóra eða staðgengli hans þar sem gerð er grein fyrir ástæðum fjölda leyfisdaga. Að öðrum kosti er skráð fjarvist hjá nemanda.
Leyfi frá skóla telst tímabundin undanþága frá skólasókn barns. Foreldrar bera ábyrgð á námi nemenda meðan þeir eru í leyfi sbr. 15. grein grunnskólalaga. Vakin er athygli á því að einn dagur samsvarar að meðaltali 6 kennslustundum á yngsta stigi, 7 kennslustundum á miðstigi og 7,4 kennslustundum á unglingastigi samkvæmt 28. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008.
Lög um grunnskóla; úr 15. gr. Skólaskylda.
„Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.
Um ákvörðun um veitingu undanþágu eða synjun hennar gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Slík ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur ráðherra mælt fyrir um að undanþága verði veitt í heild eða að hluta, jafnvel þó að af hálfu sveitarfélags hafi ekki verið fallist á slíka beiðni”.
Ef í ljós kemur að sótt er ítrekað um leyfi eða tilkynnt eru veikindi fyrir nemanda í einstakri námsgrein ber umsjónarkennara að kanna ástæður þess hjá foreldrum/forráðamönnum.
Lög um grunnskóla; úr 13.gr. Réttur nemenda.
„Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila...“
Viðbrögð vegna ófullnægjandi skólasóknar - leyfi/veikindi
Meginreglan er að fylgja þeim viðmiðum sem koma fram í þrepunum en ævinlega skal leggja faglegt mat á aðstæður nemenda og taka tillit til aldurs þeirra, þroska og námsstöðu. Sérstaklega skal taka tillit til aðstæðna í skólum með fleiri en 180 nemendadaga og bæta hlutfallslegri hækkun við þrepin.
10 veikinda- og/eða leyfisdagar
Umsjónarkennari ræðir við foreldra. Dagsetning samtals skráð í Mentor / Námfús.
15 veikinda- og/eða leyfisdagar
Umsjónarkennari boðar foreldra og nemanda til fundar ásamt námsráðgjafa eða fulltrúa skólastjóra. Fundargerð skráð.
20 veikinda- og/eða leyfisdagar
Umsjónarkennari vísar málinu til skólastjóra sem tekur erindið upp í nemendaverndarráði ef þörf þykir, með vitneskju foreldra. Tilvísun umsjónarkennara skráð.
25 veikinda- og/eða leyfisdagar
Málið tekið upp í nemendaverndarráði sem getur tekið ákvörðun um að skólastjóri/fulltrúi hans boði foreldra til fundar ásamt umsjónarkennara og fulltrúa skólaþjónustu. Fundargerð skráð og gerð áætlun um aðgerðir.
30 eða fleiri veikinda- og/eða leyfisdagar
Skólastjóri, fyrir hönd skólans, tilkynnir skólasókn nemanda til Barnaverndar Mosfellsbæjar. Fram kemur í tilkynningu hvað hafi verið gert á fyrri þrepum.
Á öllum þrepum ber að gæta jafnræðis og samræmis í viðbrögðum. Taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
Stuðla ber að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um mál nemanda og afla samþykkis þeirra þegar við á. Gæta ber að rétti foreldra til upplýsinga.
Undantekningarlaust skal haga skráningu mála sem fara samkvæmt verklagsreglunum til samræmis við 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem m.a. kemur fram að halda þarf til haga mikilvægum upplýsingum í tengslum við meðferð mála og ef taka á ákvörðun um rétt eða skyldur manna ber að skrá málsatvik. Stjórnandi skal sjá til þess að atvik séu skráð og varðveitt á starfsstaðnum svo og ferill máls og ákvarðanir sem teknar eru í kjölfarið, í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 og jafnframt lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014.
Auk þess ber að fylgja ákvæðum laga um grunnskóla nr. 91/2008, reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins, reglugerð nr. 444/2019 um skólaþjónustu, reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 og öðrum lögum og reglum sem gilda um grunnskóla.
Endurskoðað: 09.06.2021.
Ábyrgðarmaður: Framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs.