Kvíslarskóli
  • Virðing - 
  • Þrautseigja - 
  • Ábyrgð

Fréttir úr skólastarfi Kvíslarskóla í september

13/09/21

Nú eru allir foreldrakynningarfundirnir afstaðnir og ef einhverjar spurningar hafa vaknað í kjölfarið þá endilega hafið samband við okkur. Við munum senda ykkur glærurnar í vikunni.

Nemendur 7. bekkja fengu heimsókn frá Stofnun Árna Magnússonar í morgun þar sem þau voru frædd um handritin og bókmenntaarfinn. Yfir hundrað nemendur sátu á sal yfir áhugaverðum fyrirlestri og fengu mikið hrós fyrir kurteisi og prúðmennsku.

Skólastarfið verður brotið upp á morgun og fimmtudaginn þar sem náttúrufræðin verður lögð til grundvallar náminu og ótalmörgu fléttað inn í kennsluna. Hver og einn árgangur er með mismunandi verkefni. Í 7. g 8. bekk fer gagnaöflun að hluta til fram úti í náttúrunni og nemendur eru því hvattir til að koma klæddir eftir veðri. Veidd verða hornsíli og skordýr við Stekkjarflöt og Varmána og gróður skoðaður í fjörunni svo fátt eitt sé nefnt. 9. og 10. bekkur verður meira í húsi þar sem 9. bekkurinn fræðist um þróunarkenninguna og 10. bekkurinn um mannslíkamann.

  • 7. bekkur verkefni - hornsíli og skordýr
  • 8. bekkur verkefni - gróplöntur / fræplöntur
  • 9. bekkur verkefni - þróunarkenningin
  • 10. bekkur verkefni - mannslíkaminn

Eftir hádegi á fimmtudaginn munum við streyma myndbandi um trans börn. Mosfellsbær hefur látið vinna þetta myndband í tilefni af jafnréttisdegi Mosfellsbæjar.

Hvað veist þú um trans börn?

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar verður haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 16. september með beinu streymi á facebooksíðu Mosfellsbæjar, kl. 12:50.

Á undanförnum árum hafa trans börn komið út bæði yngri og í meira mæli en áður. Í dag eru trans börn í því sem næst öllum grunnskólum Mosfellsbæjar og því er vel við hæfi að fjalla um málefni trans barna á jafnréttisdegi Mosfellsbæjar 2021. Með aukinni fræðslu um trans börn náum við að vinna gegn fordómum, sýna aukinn stuðning og hjálpa þessum börnum að njóta sín. Við hvetjum ykkur eindregið til að fræðast um þetta mikilvæga málefni en streymið verður aðgengilegt á facebooksíðu Mosfellsbæjar eftir viðburðinn.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira