Kvíslarskóli
  • Virðing - 
  • Þrautseigja - 
  • Ábyrgð

Reglur um próf og verkefnaskil

Varðar próf, kannanir og verkefnaskil í Kvíslarskóla

Í Kvíslarskóla er leitast við að hafa leiðsegjandi námsmat (leiðsagnarmat) sem metur fjölbreytta hæfni nemenda. Lögð er áhersla á að nemendur skili verkefnum á tilsettum tíma, samkvæmt kennsluáætlun og þeim upplýsingum sem fram koma í Mentor. Ef nemandi er veikur eða hefur verið í leyfi þegar próf eða verkefnaskil fara fram, ber hann sjálfur (eða foreldri/forráðamaður) ábyrgð á að ræða við viðkomandi kennara í fyrsta tíma eftir veikindi/leyfi í viðkomandi námsgrein, um hvernig próftöku eða verkefnaskilum verði háttað. Ef nemandi hefur ekki samband við viðkomandi kennara á tilskyldum tíma fær hann ólokið/D fyrir verkefnið, vinnubókina, prófið.

Minnum á að í Kvíslarskóla er unnið eftir agastefnunni Uppeldi til ábyrgðar og sérstök áhersla lögð á sjálfstæði, samvinnu og ábyrgð nemenda á eigin námi.

Brot úr nokkrum greinum úr lögum um grunnskóla sem vert er að hafa í huga:

Í 14. grein segir meðal annars um ábyrgð nemenda
Að nemendur beri ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.

15. greinin fjallar um skólaskyldu og þar segir meðal annars
Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.

Í 18. grein er meðal annars talað um ábyrgð foreldra
Foreldrar skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur.

Að lokum er rétt að minna á lykilhæfni nemenda. Viðmið um mat á lykilhæfni eru sett fram í fimm liðum og einn þeirra er hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu. Lögð verður sérstök áhersla á þennan lið í öllu námsmati skólans.

Jákvæð samskipti heimilis og skóla, stundvísi og góð ástundun náms er lykill að góðum námsárangri.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira