Stefna Kvíslarskóla
Stefna Kvíslarskóla tekur mið af lögum, reglugerðum, alþjóðasamþykktum, stefnu Mosfellsbæjar í fræðslumálum og félagslegu umhverfi skólans. Öllum skal tryggt jafnrétti til náms án tillits til kyns, þjóðernis, stéttar, stöðu og trúarbragða.
Í skólanum er lögð áhersla á hugarfar, virðingar, þrautseigju og ábyrgðar. Markmið skólans er að auka þekkingu og leikni nemenda og gera þá að farsælum og sjálfstæðum einstaklingum. Einstaklingum sem hafa trú á eigin getu og takast óhræddir á við nýja hluti til að finna hæfileikum sínum og hæfni farveg. Kvíslarskóli leggur sig fram um að viðhafa fjölbreytta náms- og kennsluhætti þar sem allir hafa jafnan aðgang að lærdómsferlinu. Lögð er áhersla á að varða leið nemenda í námi, vinna með reynsluheim og hvetja til samvinnu, virðingar, þrautseigju og ábyrgðar.
Kvíslarskóli er vinnustaður fyrir hugmyndaríkt og skapandi starfsfólk sem sýnir metnað í starfi, ber hag nemenda fyrir brjósti og leggur sig fram um að sinna þörfum hvers og eins.
Einkunnarorð skólans eru: virðing, þrautseigja og ábyrgð. Einnig er unnið eftir hugmyndafræði Uppeldi til ábyrgðar. Uppeldi til ábyrgðar felst meðal annars í því að sýna vinsemd og virðingu, horfa til nútíðar og framtíðar, tengja líðan á líkama og sál við hugsun, orð og gerðir, hlusta ekki á neinar afsakanir fyrir óábyrgri hegðun og forðast að refsa og gagnrýna.
Þessar áherslur endurspeglast í öllum samskiptum og starfi skólasamfélagsins. Til að svo megi verða hefur skólasamfélagið komið sér saman um eftirfarandi stefnumörkun:
Virðing
Virðing felst í góðum skólabrag þar sem gleði, traust, vinsemd og jafnrétti endurspeglast í daglegum samskiptum. Í Kvíslarskóla mætum við ávallt hvort öðru með virðingu, þó að við séum ólík, af ólíkum uppruna, með mismunandi skoðanir og í ólíkum hlutverkum. Við erum öll mikilvæg og nám okkar og störf skipta máli. Við sýnum umhverfi okkar, námi, verkum og eigum okkar og annarra virðingu. Við temjum okkur að tala ávallt vel um annað fólk og okkur sjálf.
Þrautseigja
Í Kvíslarskóla er lögð áhersla á þrautseigju. Þrautseigja gengur almennt út á það að gefast ekki upp þó á móti blási. Það sem einkennir nemendur sem hafa byggt upp þrautseigju er að þeir eru sjálfsöruggir, hafa trú á eigin getu og líta jákvæðum augum á lífið. Þeir eru einnig ábyrgðarfullir, sjálfstæðir og ákveðnir í að ná markmiðum sínum. Þrautseigja hjálpar nemendum að takast á við mótlæti og vandamál með jafnaðargeði og hjálpar þeim að ráða við neikvæða þætti í lífi sínu. Þannig leggjumst við á eitt við að útskrifa, farsæla og sjálfstæða nemendur með þrautseigjuna að leiðarljósi.
Ábyrgð
Nemendur eru hvattir til að bera ábyrgð á námi sínu, hafa áhrif á það, vita hvar þeir eru staddir, hvert þeir vilja stefna og hvað er góður árangur. Í skólanum er stuðlað að hugarfari vaxtar þar sem lögð er rækt við hæfileika og að efla færni og ábyrgð í námi, leik og starfi. Áhersla er á framfarir símat og leiðsagnarmat, með markvissri uppbyggjandi endurgjöf. Nemendum er leiðbeint um að bera ábyrgð á hegðun sinni og framkomu með því að sýna vinsemd og virðingu í samskiptum.
Styrkur skólans felst fyrst og fremst í fjölbreyttum nemendum, metnaðarfullu starfsfólki og öflugu foreldrasamfélagi.