Kvíslarskóli
 • Virðing - 
 • Þrautseigja - 
 • Ábyrgð

Skólaráð Kvíslarskóla 2023-2024

Reglugerð um skólaráð

Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald.

Skólastjóri hefur forgöngu um stofnun skólaráðs. Hann situr í skólaráði og stýrir starfi þess. Auk skólastjóra sitja í skólaráði tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, tveir fulltrúar nemenda og einn fulltrúi grenndarsamfélags eða viðbótarfulltrúi úr hópi foreldra valinn af öðrum fulltrúum skólaráðs. Staðgengill skólastjóra stýrir skólaráði í forföllum skólastjóra.

Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans í samræmi við stefnu sveitarfélags um skólahald.

Skólaráð:

 1. fjallar um skólanámskrá, rekstraráætlun, starfsáætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið,
 2. fjallar um fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla og gefur umsögn áður en endanlegar ákvarðanir um þær eru teknar,
 3. tekur þátt í að móta stefnu og sérkenni skóla og tengsl hans við grenndarsamfélagið,
 4. fylgist með öryggi, húsnæði, aðstöðu, aðbúnaði og almennri velferð nemenda,
 5. fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum,
 6. fjallar um erindi frá skólanefnd sveitarfélags, foreldrafélagi, kennarafundi, almennum starfsmannafundi, nemendafélagi, einstaklingum, menntamálaráðuneyti, öðrum aðilum varðandi málefni sem talin eru upp í þessari málsgrein og veitir umsögn sé þess óskað,
 7. tekur þátt í öðrum verkefnum á vegum skólanefndar að fengnu samþykki sveitarstjórnar.

Skólaráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skóla.

Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn. Miðað skal við að skipað sé í ráðið í upphafi skólaárs fyrir lok septembermánaðar. Kosningum skal haga á eftirfarandi hátt:

 1. tveir fulltrúar kennara skulu kosnir á kennarafundi,
 2. einn fulltrúi annars starfsfólks skal kosinn á starfsmannafundi þess,
 3. tveir fulltrúar foreldra skulu kosnir samkvæmt starfsreglum foreldrafélags, sbr. 9. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla,
 4. tveir fulltrúar nemenda skulu kosnir samkvæmt starfsreglum nemendafélags, sbr. 10. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla,
 5. skólaráð skal sjálft velja einn fulltrúa úr hópi íbúa í grenndarsamfélaginu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra.

Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Varamenn geta tekið sæti í skólaráði á einstökum fundum í forföllum aðalmanns. Varamaður tekur fast sæti við varanleg forföll eða missi kjörgengis aðalmanns, nema nýr sé kjörinn eða valinn í hans stað.

Fulltrúi í skólaráði missir hæfi sitt til setu í ráðinu ef tengsl hans við skólann rofna.

Skólastjóri stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Vinnulag og starfshættir skólaráðs skulu m.a. taka mið af stærð skóla, fjölda árganga og öðrum einkennum hans.

Skólaráð skal setja sér starfsáætlun til eins skólaárs í senn, m.a. um tíðni funda, boðun þeirra og undirbúning. Skólastjóri boðar reglulega til funda. Skólaráð skal að lágmarki halda einn opinn fund á ári um málefni skólans fyrir aðila skólasamfélagsins.

Skólaráð starfar á starfstíma skóla en heimilt er að kalla það saman á öðrum tíma beri brýna nauðsyn til. Skylt er að kalla saman fund ef þrír eða fleiri skólaráðsmenn óska þess.

Halda skal gerðabók um skólaráðsfundi og skulu fundargerðir liggja frammi í skólanum og á vef skóla.

Skólaráð getur sett sér nánari starfsreglur.

Fulltrúar nemenda skulu ávallt eiga þess kost að taka þátt í starfi skólaráðs þegar fjallað er um velferðar- og hagsmunamál nemenda, árlega starfsáætlun skóla, aðrar áætlanir er varða skólahaldið og um meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla.

Skólastjóri getur, að höfðu samráði við nemendur og aðra fulltrúa í skólaráði, leyst fulltrúa nemenda undan setu í skólaráði, t.d. þegar mál eru á vinnslustigi og þegar verið er að fjalla um mál þar sem nemendur telja sig ekki hafa forsendur til þátttöku. Fulltrúar nemenda hafa þó ávallt rétt á að taka þátt í starfi skólaráðs.

Fulltrúar foreldra í skólaráði gæta hagsmuna nemenda þegar þeir, vegna aldurs eða þroska, geta ekki tekið þátt í störfum skólaráðs, sbr. 13. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Skólaráð getur vísað erindum sem það hefur fjallað um, ásamt umsögn, til skólanefndar, foreldrafélags, starfsmannafundar eða nemendafélags.

Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð grunnskóla og foreldraráð leikskóla starfi sameiginlega í einu ráði í samreknum leik- og grunnskóla, skv. 45. gr. laga um grunnskóla. Miða skal við að fulltrúar nemenda komi úr efstu bekkjum grunnskólans og að fulltrúar foreldra og kennara komi frá báðum skólastigum. Ákvæði þetta gildir einnig um skóla þar sem tvö eða fleiri sveitarfélög hafa samvinnu um rekstur hans, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 8. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 4. desember 2008.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

 

Hlutverk skólaráðs

 • Gerð skal áætlun um fundartíma á skólaárinu en skólaráð fundar a.m.k. fimm sinnum á skólaárinu í skólanum, á dagvinnutíma. Skólastjóri undirbýr fundi og boðar til þeirra með dagskrá. Skólastjóri boðar ennfremur til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags að lágmarki einu sinni á ári. Skólaráð skal að lágmarki halda einn opinn fund á ári um málefni skólans fyrir aðila skólasamfélagsins.

 • Skólaráð starfar skv. ákvæðum 8. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara, ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra, auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Skólaráð velur að auki einn fulltrúa grenndarsamfélags til að sitja í ráðinu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra.

 • Miðað skal við að skipað sé í ráðið í upphafi skólaárs, fyrir lok septembermánaðar. Foreldrar skulu kosnir á aðalfundi foreldrafélags samkvæmt þeim starfsreglum sem foreldrafélagið setur sér sbr. 9. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Þá skulu kosnir aðalmenn og jafnmargir varamenn. Varamenn skulu skipaðir í skólaráð og geta tekið sæti í skólaráði á einstökum fundum í forföllum aðalmanns. Fulltrúar kennara skulu kosnir á kennarafundi að hausti það ár sem umboð fulltrúa rennur út og fulltrúi starfsmanna á starfsmannafundi að hausti það ár sem umboð fulltrúa rennur út. Fulltrúar nemenda skulu kosnir að hausti samkvæmt starfsreglum nemendafélags, sbr. 10 gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

 • Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólanefnd, sbr. 6. gr. laga nr. 9/2008 um grunnskóla, getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráði ákveðin verkefni þessu til viðbótar. Skólaráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skóla.

 • Skólaráð starfar í náinni samvinnu við stjórn foreldrafélag skólans og leitast við að tryggja gagnkvæma miðlun upplýsinga. Fundargerðir hvors aðila skulu vera aðgengilegar á vefsíðu skólans.

       Skólaráð Kvíslarskóla 2023 - 2024

 • Þórhildur Elfarsdóttir, skólastjóri
 • Kristín Ásta Ólafsdóttir, kennari
 • Heiða Hrund Matthíasdóttir, kennari
 • Ísak Ólafsson,  stuðningsfulltrúi
 • Karólína Björg Árnadóttir nemandi í 10. GÁS
 • Jón Gauti Grétarsson nemandi í 9. ÁB
 • Guðrún Helgadóttir, grenndarfulltrúi
 • Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fulltrúi foreldra
 • Katrín Björk Baldvinsdóttir

Starfsáætlun skólaráðs Kvíslarskóla 2023 -2024

13. desember. Staða húsnæðismála, skoðunarferð um húsið, skólanámskrá, önnur mál.

24. janúar. Staða húsnæðismála, starfsáætlun, forvarnaráætlun, upplýsingar frá nemendum, önnur mál.

28. febrúar. Öryggi og aðbúnaður, kannanir, önnur mál.

24. apríl. Húsnæðismál, opið hús, upplýsingar frá nemendur, önnur mál

22. maí. Staða skólalóðar og undirbúningur næsta skólaárs.

 Auk þessa verða kynntar niðurstöður kannana, sem teknar eru á árinu.

 

Starfsáætlun 2022 - 2023

Ákveðið að fundir verði haldnir kl. 13:30 á þriðjudögum og verði þann 10. janúar, 14. febrúar, 21. mars og 16. maí.

10. janúar. Skólapúlsinn, aðbúnaður og líðan, upplýsingar frá nemendum, önnur mál.

14. febrúar. Skóladagatal, aðbúnaður og öryggi, önnur mál.

21. mars. Aðbúnaður og viðhald, velferð nemenda og öryggi, upplýsingar frá nemendum, önnur mál.

16. maí. Staða húsnæðismála og skólalóðar, staðan tekin með húsverði, farið yfir skólaárið, rekstur og undirbúningur næsta skólaárs.

 


Fundir í skólaráði

2023 - 2024

Skólaráðsfundur 24. maí 2024

 

Mættir voru:  Þórhildur Elfarsdóttir, skólastjóri,  f.h. kennara Kristín Ásta Ólafsdóttir og Heiða Hrund Matthíasdóttir,  f. h. foreldra Katrín Hilmarsdóttir og Árni Jónsson, fulltrúi nemenda Jón Gauti Grétarsson og Guðrún Helgadóttir grenndarfulltrúi.

 

Umræða og samþykktir:

 

Staða skólalóðar og undirbúningur næsta skólaárs.

Hildur Hafbergsdóttir umsjónarmaður verksins mætti á fundinn og fór yfir stöðu framkvæmda.

Hún telur að 90% af verkinu sé lokið og það sem eftir stendur sé á lokametrunum og ljúki í sumar. Hún tók fram að miðrými skólans verði málað í sumar og að gengið verði frá gólfi og úttekt á stofum 201-204 í sumar.

 

Rætt var um skólaslitin sem eru framundan og þátttöku foreldra.

 

Þá upplýsti Guðrún að Bólið hefði fengið styrk til að setja af stað tilraunaverkefni varðandi kennslu  í 10. bekk um markmiðsetningu.

 

Talsverð umræða skapaðist um fræðslu fyrir unglinga.

 

Skólastjóri þakkaði fundarmönnum fyrir gott, gagnlegt og jákvætt samstarf yfir skólaárið.

 

 

Fundi slitið kl. 9.30

 

Fundargerð ritaði: Þórhildur Elfarsdóttir

Skólaráðsfundur 5. mars 2024

Mættir voru:  Þórhildur Elfarsdóttir, skólastjóri,  f.h. kennara Kristín Ásta Ólafsdóttir og Heiða Hrund Matthíasdóttir, fulltrúi starfsfólks Ísak Ólafsson, f. h. foreldra Katrín Baldvinsdóttir og Guðrún Helgadóttir grenndarfulltrúi.

 

Umræða og samþykktir:

Farið yfir stöðuna á húsnæðismálum. Allar skólastofurnar eru að komast í gagnið, en mötuneytið er ekki tilbúið.

Rætt lítillega um foreldrakönnun Skólapúlsins og ytra matið sem nú er lokið.

Rætt um afmæli skólans, tilhögun og tímasetningu.  Ákveðið að taka stöðuna þegar nær dregur hausti og ljóst er hvernig staða húsnæðismála og umhverfi skólans þróast.

 

Fundargerð ritaði: Þórhildur Elfarsdóttir

 

Fundargerð skólaráðs föstudaginn 19. janúar 2024.

Mættir voru:  Þórhildur Elfarsdóttir, skólastjóri f.h. kennara Kristín Ásta Ólafsdóttir og Örlygur Þór  Helgason, fulltrúi starfsfólks Ísak Ólafsson og f. h. foreldra Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Katrín Baldvinsdóttir.      

Umræða og samþykktir:

1.       Staða húsnæðismála.  Þórhildur fór yfir stöðu húsnæðismála. Áætlað er að neðri hæðin verði tilbúnar í byrjun febrúarmánaðar.  Búið er að kaupa húsgögn í nýju stofurnar og húsvörður farinn að setja þau saman.  Bóklegu stofurnar eru svo til tilbúnar, en enn verið að vinna í rafmagni og lögnum. Loftræstikerfið er líka í vinnslu. Verkgreinastofur eru langt komnar svo og mötuneyti

2.       Starfsáætlun.  Þórhildur fór yfir starfsáætlun skólans. Fyrirspurnir og umræður á meðan kynningu stóð.

3.      Forvarnaáætlun.  Þórhildur kynnti forvarnaáætlun skólans

4.       Upplýsingar frá nemendum – geymt þar til síðar.

5.       Guðrún Helgadóttir samþykkt sem grenndarfulltrúi Kvíslarskóla skólaárið 2023-2024 og 2024-2025.

6.       Önnur mál.  Rætt um að fundirnir hefjist kl. 8.30

Fundargerð ritaði: Þórhildur Elfarsdóttir

 

Fundargerð skólaráðs Kvíslarskóla 19. desember 2023.

Mættir: Þórhildur Elfarsdóttir, skólastjóri,  fulltrúar kennara kristín Ásta Ólafsdóttir og Heiða Hrund Matthíasdóttir, fulltrúi starfsfólks Ísak Ólafsson og fulltrúi foreldra Sigríður Dögg Auðunsdóttir.

Umræða og samþykktir:

 • Fundartímar skólaráðs teknir upp, ákveðið að þeir byrji 8.30 á morgnana og séu á mismunandi vikudögum.Fundarboð sent út rafrænt og áminning daginn fyrir fund.
 • Skóladagatal fyrir árið 25-26 lagt fram til skoðunar.
 • Skólastjóri benti á skólanámskrána á heimasíðu skólans og bað fundarmenn að kynna sér hana.
 • Rætt um húsnæðismál og farið í skoðunarferð um neðri hæðina.

Fundi slitið kl. 9.00

Fundargerð ritaði: Þórhildur Elfarsdóttir

 

Fundargerð skólaráðs Kvíslarskóla 15. nóvember 2023.

Mættir: Þórhildur Elfarsdóttir, skólastjóri,  fulltrúar kennara kristín Ásta Ólafsdóttir og Heiða Hrund Matthíasdóttir, fulltrúi starfsfólks Ísak Ólafsson, fulltrúar foreldra Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Katrín , fulltrúi nemenda Karólína Björg Árnadóttir     

Umræða og samþykktir:

 • Rætt um fundartíma skólaráðs. Ákveðið að hann verði á miðvikudögum kl. 8 að morgni.
 • Farið yfir starfsáætlun ráðsins og skólastjóra falið að gera starfsáætlun ásamt fundarboðun og senda á fundarmenn til samþykktar.

  Tillaga að skóladagatali næsta skólaárs lagt fram.

 • Enn á eftir að kjósa grenndarfulltrúa og er það mál í vinnslu.

Fundi slitið kl. 8.40

Fundargerð ritaði: Þórhildur Elfarsdóttir

 

 

 

Fundargerð skólaráðs Kvíslarskóla 16. maí, klukkan 13:30, 2023.

Mættir:

 • Þórhildur Elfarsdóttir, skólastjóri
 • Baldur Þorkelsson nemandi í 10. KH
 • Ingibjörg Kjartansdóttir stuðningsfulltrúi
 • Kristín Ásta Ólafsdóttir kennari
 • Úlfhildur Helga Guðbjartsdóttir kennari
 • Sigríður Dögg Auðunsdóttir fulltrúi foreldra
 • Guðrún Helgadóttir grenndarfulltrúi
 • Inga Lilja Lárusdóttir fulltrúi foreldra tilkynnti forföll
 • Karólína Björg Árnadóttir, nemandi í 9. GÁS, mætti ekki

Gestur á fundinum var Lárus Elíasson verkefnastjóri hjá Eignasjóði Mosfellsbæjar. Lárus fór yfir ferli framkvæmda og stöðu húsnæðismála og skólalóðar. Fram kom að skólahúsnæðið á að mestu að vera tilbúið fyrir næsta skólaár. Félagsmiðstöðin Bólið er húsnæðislaus meðan á húsnæðisviðgerðum stendur hjá þeim svo þau verða með aðstöðu á neðri hæð skólans fram á vor.

Í lokin var umræða um skólaárið.

Fundarmönnum voru þökkuð vel unnin störf.

Fundi slitið kl. 14.15

Fundargerð ritaði: Þórhildur Elfarsdóttir

Fundargerð skólaráðs Kvíslarskóla 21. mars, kl. 13:30, 2023.

Mættir:

 • Þórhildur Elfarsdóttir, skólastjóri
 • Baldur Þorkelsson, nemandi í 10. KH
 • Ingibjörg Kjartansdóttir, stuðningsfulltrúi
 • Karólína Björg Árnadóttir nemandi í 9. GÁS
 • Kristín Ásta Ólafsdóttir, kennari
 • Guðrún Helgadóttir, grenndarfulltrúa
 • Inga Lilja Lárusdóttir, fulltrúi foreldra
 • Úlfhildur Helga Guðbjartsdóttir, kennari tilkynnti forföll
 • Sigríður Dögg Auðunsdóttur, fulltrúi foreldra tilkynnti forföll

Umræða og samþykktir:

 1. Björk Einisdóttir, deildarstjóri kynnti niðurstöður Skólapúlsins frá mars sl.
 2. Hallgrímur verkefnisstjóri fór yfir stöðuna á viðhaldi húsnæðis Kvíslarskóla. Búið er að mestu að drena kringum húsið. Úboð á gluggum er farið af stað. Þá ræddi hann stöðu framkvæmda og tímaáætlun. Lögð verður megináhersla á að mötuneytið verði tilbúið í byrjun næsta skólaárs, í framhaldi koma verkgreinastofur og svo almennu stofurnar.
 3. Fulltrúar nemenda ræddu nýafstaðna árshátíð, sem heppnaðist mjög vel. Þá var komið inn á umgengni o.fl.

 

Fundi slitið kl.14:15

Fundargerð ritaði: Þórhildur Elfarsdóttir

Fundargerð skólaráðs Kvíslarskóla kl. 13:30 þann 14. febrúar 2023.

Mættir:

 • Björk Einisdóttir, staðgengill skólastjóra
 • Baldur Þorkelsson, nemandi í 10. KH
 • Ingibjörg Kjartansdóttir, stuðningsfulltrúi
 • Karólína Björg Árnadóttir nemandi í 9. GÁS
 • Kristín Ásta Ólafsdóttir, kennari
 • Úlfhildur Helga Guðbjartsdóttir, kennari

 

Á fundinn vantaði eftirtalda fulltrúa:

 • Sigríði Dögg Auðunsdóttur, fulltrúa foreldra
 • Guðrúnu Helgadóttur, grenndarfulltrúa

Umræða og samþykktir:

Samþykkt skóladagatals Kvíslarskóla 2023-2024. Dagatalið var sent fundarmönnum í byrjum febrúar. Dagatalið var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ólafur húsvörður var fenginn til þess að koma á fundinn til þess að greina frá stöðu mála varðandi framkvæmdir. Þar sem hann var á hraðferð var ákveðið að bíða með þennan lið til næsta fundar. Ástæða þess voru tækniörðugleikar og það að þrjá fulltrúa vantaði á fundinn á þessum tímapunkti.

Umræða um umgengni nemenda á salernum skólans. Vísað í bréf sem sent var foreldrum síðastliðinn föstudag þar sem biðlað var til foreldra um að ræða við börnin sín og að aðstoða okkur við að skapa góðan skólabrag í Kvíslarskóla.

Fulltrúar nemenda lögðu áherslu á að hægt væri að skapa betri skólabrag með skíðaferð eða ferðum svipuðum þeim sem farnar voru á Flipp flopp dögum í vor, þar sem nemendur fengu að velja sér áhugaverða skemmtun utan skólans.

Minnst á skipulag öskudagsins 22. febrúar. Dagskrá send til foreldra á mánudaginn.

Skíðaferð áætluð 23. febrúar en til vara 2. mars.

Næsti fundur skólaráðs samkvæmt starfsáætlun kl. 13:30, 21. mars.

Fundi slitið kl. 14:15.

Fundargerð skráði: Björk Einisdóttir

Mættir voru: Inga Lilja Lárusdóttir (f.h. foreldrafélagsins), Úlfhildur Helga Guðbjartsdóttir (f.h. kennara),  Kristín Ásta Ólafsdóttir (f. h. kennara), Ingibjörg Kjartansdóttir (f.h. starfsmanna),  Baldur Þorleifsson 10. EJÚ (f.h. nemenda), Guðrún Helgadóttir (grenndarfulltrúi)  og Þórhildur Elfarsdóttir skólastjóri.


Fundarefni: 

 • Skólapúlsinn
 • Aðbúnaður og líðan
 • Upplýsingar frá nemendum
 • Önnur mál

 

Björk Einisdóttir deildastjóri kom á fundinn og kynnti niðurstöður Skólapúlsins. Rætt var um niðurstöðurnar jafn óðum.

Varðandi húsnæðismál, þá tók Þórhildur til máls varðandi þau atriði sem verið er að vinna að og Baldur ræddi þau atriði sem snéru að nemendur. 

Baldur spurðist fyrir um skíðaferð í febrúar, taldi að það væru komnar tvær dagsetningar í febrúar í pöntun, sem reyndist rétt.

Þórhildur fór yfir tillögur að drögum að skóladagatali næsta skólaárs. Kristín Ásta minntist á nokkur atriði varðandi dagsetningar sem verða teknar til skoðunar.

Fundi lokið kl. 14:15.

Fundargerð ritaði: Þórhildur Elfarsdóttir

 

2022

Mættir: Þórhildur Elfarsdóttir (skólastjóri), Ólafur (húsvörður), Svava Sigurjónsdóttir (fulltrúi kennara), Melkorka Ólafsdóttir (fulltrúi starfsmanna), Halla Katrín W. Ólafsdóttir (fulltrúi nemenda), Inga Lilja Lárusdóttir (fulltrúi foreldra), Guðrún Helgadóttir (Bólið), Bergdís (nemendafélagið) og Ásta (nemendafélagið).


Fyrsta mál.
Nemendaráðið átti orðið og fór yfir hvað búið er að gera í vetur og hvað þau eru að gera.

Helstu málefni voru:

 • Árshátíðin - gekk vel
 • Flipflop almennt - mjög sátt. Væru til í að hafa fjölbreyttari skil á verkefnum.
 • Nemendaráðs flipflop seinasta daginn fyrir páska
 • Ánægð með breytta tímasetningu í skólanum. Gott að byrja 8:30.
 • Ánægð með að sleppa 5 mín á milli tíma
 • Almenn ánægja með hafragrautinn á morgnana

 

Það sem þarf að skoða:

 • Rútan - troðningur á leiðinni heim í Leirvogstungu (14:10)
 • Hafa 7. bekk meira með í hinum ýmsu skemmtunum og böllum
 • Merkingar á skólanum - er í vinnslu
  - Húsið verður merkt á tveimur stöðum, þar sem merkingin er núna og svo þar sem maður kemur að húsinu.
 • Skólabragurinn - rætt hvernig hægt væri að bæta hann

 

Annað mál.
Óli húsvörður fór yfir hvaða viðhald sé framundan

 • Heimilisfræðistofan verður endurnýjuð
 • Salernin (fyrir nemendur) verða endurnýjuð. Nemendur óska eftir að dömubindi verði aðgengileg á salernunum.
 • Gólfdúkurinn niðri ónýtur. Rætt um hvað valdi.
 • Síðasta sumar fór regnvatnslögn á vesturhlið skólans sundur. Í framhaldi tók Efla út nokkrar stofur. Eftir áramótin var síðan farið aftur í úttekt á neðri hæð og er fyrirhuguð kynning á niðurstöðum framundan.

 

Þriðja mál.

Almenn umræða

 • Umgengni er orðin betri
 • Texti um hvert sé hægt að leita aðstoðar ef manni líður illa er kominn á skjáinn frammi
 • Geðlestin kom en það var dræm mæting hjá nemendum, en ánægja með kynninguna.
 • Samræmd próf hafa verið lögð niður
  - Nemendafélagið spurt hvað þeim þætti um getuskiptingu: Fínt í stærðfræði en ekki í íslensku (10. bekkur)

 

Fjórða mál.

 • Farið yfir Skólapúlsinn
  - Verður sett á heimasíðuna, ásamt úrbótaáætlun

 

- Fundargerð ritaði Svava Sigurjónsdóttir.

 Fundarstaður: stofa 210

Mættir: Inga Lilja Lárusdóttir (f.h. foreldrafélagsins) Úlfhildur Helga Guðbjartsdóttir (f.h. kennara) Kristín Ásta Ólafsdóttir (f. h. kennara) Karólína Björg Árnadóttir 9. GÁS (f.h. nemenda) og Þórhildur Elfarsdóttir skólastjóri


Fundarefni: Fundartímar og fundarefni skólaráðs.

Ákveðið að fundir verði haldnir kl. 13:30 á þriðjudögum og verði þann 10. janúar, 14. febrúar, 21. mars og 16. maí.

 • 10. janúar. Skólapúlsinn, aðbúnaður og líðan, upplýsingar frá nemendum, önnur mál.
 • 14. febrúar. Skóladagatal, aðbúnaður og öryggi, önnur mál.
 • 21. mars. Aðbúnaður og viðhald, velferð nemenda og öryggi, upplýsingar frá nemendum, önnur mál.
 • 16. maí. Staða húsnæðismála og skólalóðar, staðan tekin með húsverði, farið yfir skólaárið, rekstur og undirbúningur næsta skólaárs.

 

Fundargerð ritaði: Þórhildur Elfarsdóttir

2021

Fundarstaður: Zoom

Fundarefni:

 • Starfsáætlun skólaráðs
 • Fundartímar skólaráðs
 • Grenndarfulltrúi kosinn
 • Önnur mál

Fundargerð

Mættir: Þórhildur Elfarsdóttir (skólastjóri), Svava Sigurjónsdóttir (fulltrúi kennara), Úlfhildur Guðbjartsdóttir (fulltrúi kennara), Melkorka Ólafsdóttir (fulltrúi starfsmanna), Halla Katrín W. Ólafsdóttir (fulltrúi nemenda), Baldur Þorkelsson (fulltrúi nemenda), Guðrún Helgadóttir (fulltrúi grenndarsamfélagsins), Dagný Kristinsdóttir (fulltrúi foreldra) og Inga Lilja Lárusdóttir (fulltrúi foreldra).

Fyrsta mál. 
Rætt um starfsáætlun Kvíslarskóla, fjölda funda, dagskrá og tímasetningar. Starfsáætlun sett niður og samþykkt, sjá starfsáætlun í viðhengi.

Annað mál.
Ákveðið að hafa fundurtíma á fimmtudögum kl. 8:30.

Þriðja mál.
Ákveðið að biðja Guðrúnu Helgadóttur forstöðumann Ungmennastarfs Mosfellsbæjar að taka að sér að verða grenndarfulltrúi í skólaráði Kvíslarskóla.

Fjórða mál.
Rætt um forvarnir og andlega heilsu nemenda. Ákveðið að fara af stað og finna fræðslu við hæfi. Fram kom að nemendur vilja fá Vinaliðaverkefnið í gang aftur og að leiktæki sem til eru séu nýtt.

Fundarstaður: Zoom

Fundarefni:

 • Starfsáætlun Kvíslarskóla
 • Skólapúlsinn
 • Upplýsingar frá nemendaráði
 • Önnur mál 

Fundargerð

Mættir: Þórhildur Elfarsdóttir (skólastjóri), Svava Sigurjónsdóttir (fulltrúi kennara), Úlfhildur Guðbjartsdóttir (fulltrúi kennara), Melkorka Ólafsdóttir (fulltrúi starfsmanna), Halla Katrín W. Ólafsdóttir (fulltrúi nemenda), Baldur Þorkelsson (fulltrúi nemenda), Guðrún Helgadóttir (fulltrúi grenndarsamfélagsins), Dagný Kristinsdóttir (fulltrúi foreldra) og Inga Lilja Lárusdóttir (fulltrúi foreldra). Gestur fundarins var Bergdís Heba Rúnarsdóttir.

Fyrsta mál.
Rætt um starfsáætlun Kvíslarskóla, farið yfir hvernig að henni er staðið og hvað er í henni að finna.

Annað mál.
Farið yfir skipulag Skólapúlsins.

Þriðja mál.
Formaður nemendaráðs Bergdís Heba Rúnarsdóttir fór yfir þau atriði sem nemendaráð hefur komið að á þessu hausti.

Fjórða mál.
Rætt um forvarnir, hvað væri í boði.

Fram kom fyrirspurn frá nemendum um hvernig skólalóðin skiptist milli Varmárskóla og Kvíslarskóla og hvort hægt væri að gera svæðið þar sem lausu stofurnar v/eldri deild voru skemmtilegra og jafnvel setja þar upp rólur eða leiksvæði.

Rætt um að skólasálfræðingur myndi koma og hitta nemendur á nýju ári með forvarnir í huga. Og eins að auglýsa á upplýsingasjónvarpi hvar og hvert nemendur geta leitað sér aðstoðar.

- Fundargerð ritaði Þórhildur Elfarsdóttir.

 

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira